Lovísa Hrund

Lovísa Hrund fæddist þann 5. október 1995 á Akranesi var hún yngsta barn okkar foreldranna. Lovísa Hrund á þrjú systkyni þau eru Ásgeir, Heiður og Engilbert. Þegar Lovísa Hrund leit dagsins ljós varð það snemma ljóst hversu mikil kærleiksvera og falleg sál hún var. Hún var alla tíð mikil barnagæla og börn voru hennar helsta áhugamál og soguðust þau að henni. Það leyndi sér ekki þegar hún var nýfarinn að ganga þá byrjaði hún að rétta út faðminn til barna sem voru mun stærri en hún og sagði ,,viltu koma?“. Dýr og menn voru einnig hennar áhugamál og mátti hún ekkert aumt sjá, það gat valdið henni miklu hugarangri. Hún var alltaf fyrst til að taka upp hanskann fyrir þá sem voru beittir ranglæti.

Lovísa Hrund 5

Lovísa Hrund var mjög sjálfstæð snemma og þótti okkur foreldrunum oft gaman að fylgjast með henni, hvað henni datt í hug að gera til þess að hafa ofanaf fyrir sjálfri sér. Klæða sig upp í fín föt og taka rúnt í strætó var til dæmis vinsælt um tíu ára aldurinn, þar sem aðeins einn strætisvagn er á Akranesi hafði hún góða yfirsýn á bæjarhringnum.
Ævi hennar markaðist af umhyggjunni sem streymdi frá henni fyrst og fremst og til allra þeirra sem hún elskaði.
Heilbrigður lífsstíll var hennar helsta áhugamál undir það síðasta, ásamt börnunum. Næring og hreyfing átti hug hennar allann og var hún dugleg að reyna að teyma okkur foreldrana í ræktina eða fá okkur til þess að borða hollan mat. Að mörgu leiti var þroski hennar komin lengra heldur en okkar foreldranna.

Lovísa Hrund 6

Snemma byrjaði Lovísa að vinna sér inn peninga og var hún dugleg að vinna en vinnan sem hún hafði reyndist henni ekki nægilega þroskandi að hennar sögn, svo hún ákvað að leita til Reykjavíkur til þess að breyta til. Veitingarstaðurinn Argentína varð fyrir valinu hjá henni. Þaðan var hún að koma nóttina örlagaríku, þegar hún lést.
Lovísu Hrundar er sárt saknað af fjölskyldu sinni og stórum vinahóp. Fallega brosið, bjölluhláturinn hennar, fallega síða hárið, ilminn af ungu lífsglöðu Lovísu Hrund er orðin minningin ein.

En Guð einn veit hvað það var yndislegt að fá að kynnast svona fallegri og góðri sál, hún kenndi okkur svo margt. En eitt vitum við að hún hefði sjálf viljað láta andlát sitt hafa einhvern tilgang. Því ákváðum við að láta verkin tala og stofna minningarsjóð í Lovísu Hrundar nafni sem stuðlar að forvörnum gegn ölvunarakstri.

„Mamma og Pabbi“
Hrönn Ásgeirsdóttir
Svavar Skarphéðinn Guðmundsson